Súkkulaðikaka með tvennskonar súkkulaðimús

Fyrirgefðu, fyrirgefðu! Hér kemur ein svakaleg: dökkur þéttur súkkulaðibotn með súkkulaðimús og hvítsúkkulaðimús. Ef ég væri ekki gift yrði þetta brúðartertan!

Uppskriftin kemur frá  Crunchy creamy sweet.

Súkkulaðikaka með tvennskonar súkkulaðimús
Botn
90 gr íslenskt smjör
210 gr Síríus súkkulaði, 56%
3/4 tsk fínmulið instant kaffi (Ég muldi það bara með skeið, hef gert það líka í mortéli)
4 stór egg
1,5 tsk vanilludropar
Smá salt
1/3 bolli púðursykur

Súkkulaðimús
2 msk kakó
5 msk heitt vatn
210 gr Síríus suðusúkkulaði
1,5 bolli rjómi
1 msk sykur
Smá salt

Hvítsúkkulaðimús
1 blað matarlím
Kalt vatn
180 gr hvítt súkkulaði
1,5 bolli rjómi

Botn
Bræðið súkkulaðið með smjörinu og instantkaffiduftinu, kælið í smá stund (ca. 5 mín)
Skiljið eggin og hrærið eggjarauðunum saman við súkkulaðiblönduna, ásamt vanilludropunum, og hrærið þar til blandan er jöfn.
Þeytið eggjahvíturnar með salti í smá stund, þar til þær eru orðnar að léttri froðu. Bætið helming púðursykursins saman við og þeytið þar til hann hefur blandast vel. Bætið þá hinum helmingnum saman við og þeytið þar til vel blandað, og blandan farin að mynda toppa (við erum samt ekki að tala um marengs, sko).
Takið ca. þriðjung eggjahvítanna og hrærið varlega saman við súkkulaðiblönduna, þar til hún verður ljósari og léttari. Setjið svo restina af eggjahvítunum saman við, og blandið varlega saman með sleikju, við viljum halda sem mestu lofti í blöndunni.
Smyrjið ca. 23-25 cm springform (smelluform) og hellið blöndunni varlega í. Sléttið, og bakið í ca 20-25 mín við 160°, eða þar til prjónn sem stungið er í kemur upp með smá mylsnu. (Ég klippti bökuanpappír og setti í botninn á forminu, svo hún myndi síður festast við).
Takið kökuna út og látið kólna í að minnsta kosti klukkustund. Hún mun falla töluvert, og það er eðlilegt 🙂

Súkkulaðimús
Hrærið kakóið út í heita vatnið og setjið til hliðar. Brærið súkkulaðið og kælið.
Þeytið rjómann með sykrinum og saltinu, þar til hann er léttþeyttur.
Hrærið kakóblönduna út í súkkulaðið. Súkkulaðið mun líta út fyrir að hafa skemmst, en haldið áfram að hræra og blandan verður eðlileg aftur.
Hrærið þriðjung rjómans varlega saman við súkkulaðiblönduna, bætið svo restinni af rjómanum saman við og blandið varlega með sleikju. Við viljum halda sem mestu lofti í músinni, og því erum við ekkert að drífa okkur. Bara rólega, en passa að það verði ekki eftir hvítar eða brúnar rákir í blöndunni.
Ef einhverjar leifar eru eftir af kökunni á köntum formsins verður að hreinsa það burt, áður en músinni er hellt yfir. Sléttið vel, en sláið forminu ca 3. sinnum í borð eða bekk til að losna við loftbólur. Kælið í kæliskáp, í a.m.k. klukkustund.

Hvítsúkkulaðimús
Leggið matarlímið í kalt vatn.
Setjið hvíta súkkulaðið í stóra skál, og hitið 1/2 bolla af rjóma upp að suðu.
Þegar rjóminn er við það að fara að sjóða er hann tekinn af hellunni, matarlímsblaðið veitt upp úr vatninu, sett yfir í rjómann og hrært þar til það er uppleyst.
Hellið svo rjómanum yfir hvíta súkkulaðið og látið standa í ca. hálfa mínútu áður en þið byrjið að hræra. Hrærið þar til allt súkkulaðið hefur bráðnað. Kælið blönduna niður í stofuhita – það er mikilvægt fyrir áferðina á músinni.
Þegar blandan hefur kólnað er rjóminn léttþeyttur.
Setjið þriðjung rjómans saman við súkkulaðiblönduna og hrærið varlega þar til hefur blandast vel – muna; við viljum halda í loftið í rjómanum, þannig þetta er allt gert á rólegu nótunum.
Setjið svo restina af rjómanum saman við og blandið varlega með sleikju, þar til allt hefur blandast.
Nú þarf að þrífa kantana á forminu, ef eitthvað hefur orðið eftir af fyrri súkkulaðimúsinni.
Mokið músinni varlega með stórri skeið ofan á dekkri músina, og sléttið.
Kælið í a.m.k. 2,5 klst.

Ég skar kökuna nánast í gegn með girni, en notaði svo tenntan kökuhníf til að skera í gegn um botninn. Ef skurðirnir eiga að vera fallegir er mikilvægt að þurrka af hnífnum í hvert skipti sem skorið er.
Kökuna skar ég í 16 sneiðar, og það var bara passlegur skammtur! 🙂

20160711_204135_resized.jpg

Gordjöss!

Verði ykkur að góðu 🙂

Þessi færsla var birt í Uppskriftir og merkt sem , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd