Mojito með myntusírópi

Styttri leiðin að Mojito… má segja..

Myntusíróp (uppskrift fengin héðan):
1 bolli sykur
1 bolli vatn
30 gr. fersk mynta

Setjið sykur og vatn í pott og sjóðið saman þar til sykurinn er leystur upp. Setjið þá myntuna út í og sjóðið í 1 mínútu. Látið kólna í ca. 30 mínútur áður en þið sigtið myntuna frá og kreistið úr henni restina af sírópinu. Ég sigtaði þetta fyrst í gegnum sigti og svo í gegnum klút til að ná öllum ögnunum úr.

Mojito með myntusírópi (uppskrift fengin héðan):
60 ml myntusíróp
45 ml. ljóst romm
30 ml lime safi
120 ml kolsýrt vatn

Hristið saman myntusíróp, romm og limesafa og setjið í glas með klökum. Bætið 120 ml af sódavatni í glasið og hrærið smá. Berið fram með margnota stálröri 😉

Verði ykkur að góðu!

 

Birt í Uppskriftir | Merkt , | Færðu inn athugasemd

„KFC“ bitar

Það eru tíu ár síðan ég byrjaði að búa, og ég hef aldrei djúpsteikt mat. Ég held það sé einhver hræðsla við alla þessa sjóðheitu olíu. En, ekki það, það er heldur bara ekkert hollt! 😉

Aftur á móti bakaði ég þessa bita, og þeir voru geggjaðir! Uppskrfitin er fengin héðan.

Beinlausir, bakaðir „KFC“ bitar
ca. 500 gr kjúklingabringur, skornar í bita, ca. 3-4
ca. 4 msk íslenskt smjör
3/4 bolli hveiti
1/2 bolli rasp
1/2 tsk salt
1 msk season all (ég nota frá Prima)
1/2 msk svartur pipar
2 tsk paprika

Blandið öllum þurrefnum saman.

Ég notaði tvö eldföst mót, því bitarnir þurfa pláss. Setja nokkrar klípur af smjöri í hvort fat. Hita ofninn í 220° og henda formunum inn þar til smjörið er bráðið.

Ég var með frosinn kjúkling, þannig hann var vel blautur og hjúpurinn límdist vel við. Ef bringurnar eru þurrar er gott að velta þeim upp úr mjólk.

Veltið bitunum upp úr þurrefnunum, og leggið þá í bráðið smjörið í eldföstu mótunum. Setjið í ofninn og bakið í 10 mín, takið svo út og snúið bitunum varlega með töng. Bakið áfram í 10 mín, eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður.

Þetta bar ég fram með hrísgrjónum og maísstönglum – og þetta var geggjað. Meira að segja matvöndu dæturnar stundu af ánægju 🙂

Verði ykkur að góðu!

Birt í Uppskriftir | Merkt , | Færðu inn athugasemd

Kjúklingur með beikoni og sweet chili

Þessa uppskift sá ég hjá Eldhússystrum, og vá hvað þetta er gott. Ég minnkaði uppskriftina og breytti henni aðeins til að hún hentaði okkur.

Kjúklingur með beikoni og sweet chili í rjómasósu
3 kjúklingabringur
Pipar
125 gr beikon
1.25 dós sýrður rjómi 18%
1/2 dl. mjólk
Stór hvítlauksgeiri (ég er voðalega hrifin af hvítlauk..)
1 teningur kjúklingakraftur
3 msk Sweet Chili sósa
Hvítlaukur stóóór geiri
Rifinn ostur

Skerið kjúklinginn í gúllasbita. Skerið beikonið í ræmur. Steikið beikonið á pönnu og bætið svo kjúklingnum við. Piprið. Mér finnst rétturinn nógu saltur með kjúklingakraftinum og beikoninu, svo ég hef ekki fundið mig knúna til að salta hann. Setjið kjúklinginn og beikonið í eldfast mót.

Hrærið saman sýrðum rjóma, sweet chili sósu, mjólk, hvítlauk, osti  (ca 1 dl.) og kjúklingakrafti. Hellið yfir kjúklinginn, stráið osti yfir og hendið í ofn í ca. 15 mín við 180°.

Berið fram með hrísgrjónum og salati og borðið ykkur of södd!

Verði ykkur að góðu!

 

Birt í Uppskriftir | Merkt , | Færðu inn athugasemd

Núðlusúpa með kjúklingi og kókosmjólk

Þessa hef ég eldað oft, en uppskriftin birtist á bleikt.is og ég varð að prófa. Nú er ég orðin svo hrædd um að uppskriftin gæti horfið af bleikt, þannig ég þori ekki öðru en að henda henni hénra inn!

20140223-193606.jpg

Núðlusúpa með kjúklingi og kókosmjólk
1 laukur
1/2 púrrulaukur
1/2 – 1 rauð paprika
1/2 bakki sveppir
2 kjúklingabringur
1 rautt chili
1/2 hvítlaukur
Góður biti af fersku engifer
1 dós kókosmjólk (ekki light)
500 ml vatn
1/2 tsk cayenne pipar (fara varlega..)
1/2 tsk chiliduft
1 teningur kjúklingakraftur
1 teningur grænmetiskraftur
Ágæt skvetta af sojasósu
smá skvetta af sítrónu/lime safa
Núðlur

Brytjið laukinn smátt (Halló Tupperware Smooth-Chopper!) og steikið í potti þar til hann er orðinn glær. Bætið þá við frekar smátt skornum kjúklingnum og steikið þar til hann hefur skipt um lit (þarf ekki að eldast í gegn). Brytjið/rífið chili, hvítlauk og engifer (Smooth-Chopperinn hefur nóg að gera!) og setjið út á í smá stund áður en þið bætið við restinni af grænmetinu. Steikið þar til grænmetið hefur mýkst.

Næst fara kryddin, vatnið, kókosmjólkin og krafturinn í pottinn. Þetta er látið malla þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Athugið að fara varlega í sterku kryddin og bæta frekar meiru í eftir á!

Sjóðið núðlur eftir leiðbeiningum á pakka – endilega brjótið þær niður, því annars verður nánast ómögulegt að borða súpuna.

Þegar súpan er að verða klár er sett út í pottinn smá skvettu af sítrónu- eða limesafa og góð skvetta af sojasósu. Smakkið til og berið á borð.

Mér finnst betra að bera núðlurnar á borð sér, því þessi súpa dugar okkur líka í nesti, og þær verða ekki kræsilegar af því að bíða í súpunni fram á hádegi næsta dags. Þannig við fáum okkur núðlur og svo súpu yfir bara.

Og rest í nesti.. þá er maður spenntur fyrir hádeginu 🙂

Verði ykkur að góðu!

Birt í Uppskriftir | Merkt , , | Færðu inn athugasemd

Súkkulaðikaka með tvennskonar súkkulaðimús

Fyrirgefðu, fyrirgefðu! Hér kemur ein svakaleg: dökkur þéttur súkkulaðibotn með súkkulaðimús og hvítsúkkulaðimús. Ef ég væri ekki gift yrði þetta brúðartertan!

Uppskriftin kemur frá  Crunchy creamy sweet.

Súkkulaðikaka með tvennskonar súkkulaðimús
Botn
90 gr íslenskt smjör
210 gr Síríus súkkulaði, 56%
3/4 tsk fínmulið instant kaffi (Ég muldi það bara með skeið, hef gert það líka í mortéli)
4 stór egg
1,5 tsk vanilludropar
Smá salt
1/3 bolli púðursykur

Súkkulaðimús
2 msk kakó
5 msk heitt vatn
210 gr Síríus suðusúkkulaði
1,5 bolli rjómi
1 msk sykur
Smá salt

Hvítsúkkulaðimús
1 blað matarlím
Kalt vatn
180 gr hvítt súkkulaði
1,5 bolli rjómi

Botn
Bræðið súkkulaðið með smjörinu og instantkaffiduftinu, kælið í smá stund (ca. 5 mín)
Skiljið eggin og hrærið eggjarauðunum saman við súkkulaðiblönduna, ásamt vanilludropunum, og hrærið þar til blandan er jöfn.
Þeytið eggjahvíturnar með salti í smá stund, þar til þær eru orðnar að léttri froðu. Bætið helming púðursykursins saman við og þeytið þar til hann hefur blandast vel. Bætið þá hinum helmingnum saman við og þeytið þar til vel blandað, og blandan farin að mynda toppa (við erum samt ekki að tala um marengs, sko).
Takið ca. þriðjung eggjahvítanna og hrærið varlega saman við súkkulaðiblönduna, þar til hún verður ljósari og léttari. Setjið svo restina af eggjahvítunum saman við, og blandið varlega saman með sleikju, við viljum halda sem mestu lofti í blöndunni.
Smyrjið ca. 23-25 cm springform (smelluform) og hellið blöndunni varlega í. Sléttið, og bakið í ca 20-25 mín við 160°, eða þar til prjónn sem stungið er í kemur upp með smá mylsnu. (Ég klippti bökuanpappír og setti í botninn á forminu, svo hún myndi síður festast við).
Takið kökuna út og látið kólna í að minnsta kosti klukkustund. Hún mun falla töluvert, og það er eðlilegt 🙂

Súkkulaðimús
Hrærið kakóið út í heita vatnið og setjið til hliðar. Brærið súkkulaðið og kælið.
Þeytið rjómann með sykrinum og saltinu, þar til hann er léttþeyttur.
Hrærið kakóblönduna út í súkkulaðið. Súkkulaðið mun líta út fyrir að hafa skemmst, en haldið áfram að hræra og blandan verður eðlileg aftur.
Hrærið þriðjung rjómans varlega saman við súkkulaðiblönduna, bætið svo restinni af rjómanum saman við og blandið varlega með sleikju. Við viljum halda sem mestu lofti í músinni, og því erum við ekkert að drífa okkur. Bara rólega, en passa að það verði ekki eftir hvítar eða brúnar rákir í blöndunni.
Ef einhverjar leifar eru eftir af kökunni á köntum formsins verður að hreinsa það burt, áður en músinni er hellt yfir. Sléttið vel, en sláið forminu ca 3. sinnum í borð eða bekk til að losna við loftbólur. Kælið í kæliskáp, í a.m.k. klukkustund.

Hvítsúkkulaðimús
Leggið matarlímið í kalt vatn.
Setjið hvíta súkkulaðið í stóra skál, og hitið 1/2 bolla af rjóma upp að suðu.
Þegar rjóminn er við það að fara að sjóða er hann tekinn af hellunni, matarlímsblaðið veitt upp úr vatninu, sett yfir í rjómann og hrært þar til það er uppleyst.
Hellið svo rjómanum yfir hvíta súkkulaðið og látið standa í ca. hálfa mínútu áður en þið byrjið að hræra. Hrærið þar til allt súkkulaðið hefur bráðnað. Kælið blönduna niður í stofuhita – það er mikilvægt fyrir áferðina á músinni.
Þegar blandan hefur kólnað er rjóminn léttþeyttur.
Setjið þriðjung rjómans saman við súkkulaðiblönduna og hrærið varlega þar til hefur blandast vel – muna; við viljum halda í loftið í rjómanum, þannig þetta er allt gert á rólegu nótunum.
Setjið svo restina af rjómanum saman við og blandið varlega með sleikju, þar til allt hefur blandast.
Nú þarf að þrífa kantana á forminu, ef eitthvað hefur orðið eftir af fyrri súkkulaðimúsinni.
Mokið músinni varlega með stórri skeið ofan á dekkri músina, og sléttið.
Kælið í a.m.k. 2,5 klst.

Ég skar kökuna nánast í gegn með girni, en notaði svo tenntan kökuhníf til að skera í gegn um botninn. Ef skurðirnir eiga að vera fallegir er mikilvægt að þurrka af hnífnum í hvert skipti sem skorið er.
Kökuna skar ég í 16 sneiðar, og það var bara passlegur skammtur! 🙂

20160711_204135_resized.jpg

Gordjöss!

Verði ykkur að góðu 🙂

Birt í Uppskriftir | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Ranch pasta

Halló, halló!

Kvöldmaturinn í gær var ótrúlega einfaldur en undursamlegur pastaréttur (og ekki skemmdi fyrir að annað afkvæmið borðaði án þess að gefa frá sér hljóð – þær eru báðar á „égborðekkisvona“ og „ojþetterógeðsleg“ skeiðinu núna).

image

Fann þessa uppskrift á Life with the Crust Cut Off.  En breytti aðeins hlutföllum.

Þetta er svokölluð „one pot“ uppskrift, sem lágmarkar uppvask 🙂

Ranch pasta með kjúklingi og beikoni
1 bréf beikon (ca 200 gr)
2 kjúklingabringur
Pipar
1 hvítlauksgeiri
250 gr pasta
2 bollar vatn
1 teningur kjúklingakraftur
0,5 bolli mjólk
4 msk Ranch dressing (fékk hana í Hagkaup)
1 bolli gratínostur

Skerið beikonið í bita, og steikið í potti. Setjið til hliðar, á bréfþurrku (eða hreint viskastykki – umhverfisvernd!). Skerið kjúklinginn í bita og steikið í beikonfitunni. Kjúklingurinn þarf ekki að eldast í gegn, bara lokast. Kryddið kjúklinginn með pipar, og rífið einn hvítlauksgeira yfir kjúklinginn þegar hann er að verða lokaður. (Ég notaði frosinn rifinn hvítlauk sem ég átti í kistunni, og örugglega töluvert meira en einn geira! Eeeelska hvítlauk!)

Þegar kjúklingurinn er lokaður, fer beikonið aftur í pottinn. Bætið vökvanum, kraftinum og dressingunni út í, og svo pastanu. Sjóðið þar til sósan þykknar, og pastað er soðið, en sósan þarf ekki að verða mjög þykk.

Bætið ostinum út í pottinn, hrærið meðan hann bráðnar og maturinn er klár 🙂

Þetta bar ég fram með hvítlauksbrauði og grænmeti. Undursamlega rjómakenndur og bragðgóður.

(Rétturinn getur orðið saltur ef beikonið er mjög salt, og því sleppi ég saltinu í uppskriftinni)

Verði ykkur að góðu!

 

Birt í Uncategorized, Uppskriftir | Merkt , , | Færðu inn athugasemd

Fiskur í tómatrjómasósu

Fiskréttur, með nánast engu fiskibragði?

Uppskriftin kemur héðan, en örlítið breytt.

Fiskur í tómatrjómasósu
700 gr ýsa eða þorskur
2 msk olía
Kreóla kryddblanda (eða annað krydd til að krydda fiskinn)
hálfur laukur, smátt brytjaður
2 hvítlauksrif
¼ bolli tómatpassata
1 tsk timían
0,5 bolli kaffirjómi
0,5 bolli vatn
0,5-1 tsk lys bulljong (eða annar kjúklingakraftur)
½ tsk reykt paprika
½ tsk svartur pipar
Steinselja
Salt

Þerrið fiskinn (ég læt hann liggja á hreinu viskastykki) meðan pannan hitnar. Kryddið fiskinn með kreólakryddblöndunni og steikið hann örlítið á hvorri hlið fyrir sig – við erum ekki að elda hann í gegn á þessu stigi.

Færið fiskinn á disk, steikið laukinn og hvítlaukinn á pönnunni í ca 5 mínútur, eða þar til laukurinn er orðinn glær. Bætið kaffirjómanum, passötunni, piparnu, timíaninu, steinseljunni, vatninu, buljonginu og piparnum á pönnuna, látið suðuna koma upp og látið krauma í 7-8 mínútur. Bætið fisknum út á og látið krauma þar til fiskurinn er fulleldaður.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Verði ykkur að góðu!

Birt í Uppskriftir | Merkt | Færðu inn athugasemd